Get Your Own! | View Slideshow

Hugrún & Nonni

föstudagur, mars 30, 2007

BARNAAFMÆLI

Almáttugur hvað við kærustuparið erum fegin að það er HEILT ÁR í næsta barnaafmæli :-D Það er gaman á sinn hátt að halda þessi afmæli en alltaf alveg andskoti gott og rólegt þegar því er lokið :) Þá er bara seinni hálfleikurinn eftir - fjölskylduafmæli!! :) Stóra stelpan okkar himinlifandi með daginn enda búin að telja fólki trú um að hún ætti ekkert afmæli á miðvikudaginn eins og hún átti. Henni fannst hún nefnilega ekkert eiga afmæli af því að veislan var ekki sama dag.

Annars er ég bara alls ekkert hress núna. Flensuhelvítið hlaut að ná í rassgatið á mér og ég er bara full af kvefi og með hálsbólgu og það á versta tíma. Fermingarathöfn hjá mér á Höskuldsstöðum á sunnudag og svo páskadagskrá í kirkjunni. En það verður að taka því sem að höndum ber og vona að heilsan lagist hið snarasta!!

Fékk ÆÐI PÆÐI símtal í dag. Það var hún Svanhildur mín rétt ókomin heim í smá frí frá tískuheiminum í Danmörku. Hún lifir ekki og hrærist í þessum bransa fyrir ekki neitt og hún aðeins að missa sig í óléttufötunum handa mér :) Ekkert smá spennt að fá hana heim í nokkra daga!!

Kveð í kvöld.

miðvikudagur, mars 28, 2007

AFMÆLISBARN DAGSINS :)



Í dag á stóri gullmolinn okkar hún Hallbjörg 6. ára afmæli.

Hún vaknaði kát og hress í morgun og opnaði tvær afmælisgjafir. Núna er hnátan í leikskólanum og búin að panta kvöldmat, kom auðvitað ekkert annað til greina en makkarónugrautur og lét fylgja með - ,,pabbi þú átt að borða hann líka" :) Ein vön því að pabbinn laumist í eitthvað annað þegar hann er á boðstólnum. Pabbinn lætur sig nú samt hafa það í tilefni dagsins!!!! ;)

þriðjudagur, mars 20, 2007

Tonleikar og fleira

Lítið um tíðindi á bænum en skellum nokkrum í punktaformi:

~ Við Jón Ólafur ætlum að skella okkur á tónleika með Stebba og Eyva í kvöld. Byrjum reyndar kvöldið í góðum mat og félagsskap á Árbakkanum.

~ Skvísan á bænum hún Hallbjörg er með lausa tönn. Hún er mjög spennt og búin að bíða eftir þessu lengi. Nógu lengi til þess að gera plan fyrir þónokkru um að skemma í sér tennurnar því þá myndi hún missa þær því það er einmitt það sem hana langar :) Dálítið slöpp lausn fannst okkur foreldrunum!!! en samt alveg frábært hvað henni getur dottið í hug þótt hugdetturnar séu ekki alltaf skynsamlegar :-D

~ Við fjölskyldan ætlum til RVK um helgina .!. Þessi helgi verður helguð fjölskyldunni. Kolbrún Camilla verður hjá okkur og svo ætlum við öll fjögur, me, Jonni, Hallbjörg og Camilla saman í leikhús á Ronju ræningjadóttur á sunnudaginn. Ég er ekki frá því að ég verði jafn spennt og stúlkuhjörtun því ég er búin að láta krakkana syngja svo mikið af lögum úr sýningunni í tónmenntinni. Gef mér samt auðvitað tíma í kaffihússhittinginn okkar þið sem heyrið undir hann!! :) Þurfum að fara að negla niður stað og stund.

~ Hélt saumó í síðustu viku og naut dyggs stuðnings og félagsskaps frænku minnar hennar Kristínar minnar í undirbúningnum - álíka miklir jeppar í þessu og skemmtum okkur svo konunglega :-D

~ Fyrstu babyfötin komin í hús :) Vá hvað þau eru eitthvað lítil og krúttleg, úff ekki laust við að ég hafi orðið ennþá spenntari fyrir komu skvísunnar við það eitt að sjá fötin. Þetta fer alveg að verða raunverulegt enda ekki nema tæpir fjórir mánuðir í settan dag. Takk kærlega Elva Dröfn.

....BIÐ AÐ HEILSA ÖLLUM Á STOKKSEYRI....

mánudagur, mars 19, 2007

Ég gleymdi alltaf að deila með ykkur að .....

..... ég prófaði í fyrsta skipti að verða bensínlaus um daginn. Það var ekkert sérstaklega skemmtilegt, sérstaklega í ljósi þess að betri helmingurinn minn hafði reynt að segja mér að það borgaði sig að taka bensín áður en ég legði af stað - en nei hélt ég kæmist þetta nú - og svo varð ég strandaglópur út í sveit. En það bjargaði mér að ég var í símasambandi og átti alveg 20 kr. inneign. Hringi nú reyndar frítt í karlinn en verð að eiga 10 kr. til þess en ég allavega gat sent eitt sms og hringt í kauða sem mátti auðvitað keyra til konu sinnar með bensín...

Ég fór í fiskibollunámið til ömmu á föstudaginn og hún hjálpaði mér úr prjónavandræðunum. Hallbjörg naut þess að vera í sveitaloftinu og hjálpaði afa í fjárhúsunum og spjallaði við Tátu. Ótrúlegt hvað það er mikið sveitablóð í henni :)

Ég er þess vegna búin að:
a) Tilkynna manni mínum að matvinnsluvél sé í fjárlögum næsta mánaðar.
b) Prjóna eins og vitleysingur um helgina og fyrsta afurðin fyrir litla babyið alveg að verða klár :) Klára í kvöld eða á morgun.

Karlinn komst í hann krappann í gær. Veðurtepptur frameftir degi eftir spilamennsku á Suðurlandinu og var heppinn að fá ekki bíl framan á sig, stelpuskjátu sem missti stjórn á bílnum og rásaði á veginum uns hún lenti útaf. Sem betur fer ekki framan á mínum manni!! Ég var alveg að fara á límingunum að vita af honum á ferð í þessum andskota. En hann komst heill heim fyrir rest, það var fyrir öllu.

Smá tilfæringar í gangi á babysíðunum. Ætlum að hafa bara eina síðu því Hallbjörg er að verða svo stór og maður spyr sig alltaf hvað eigi að halda úti barnalandssíðu lengi fyrir börn. Sá fram á að setja inn sömu myndir á báðar síður seinna meir þannig að það er alveg eins gott að hafa bara eina sameiginlega.... og verða þá vonandi virkari fyrir vikið :)

--- ANNARS ---
HEYRUMST

miðvikudagur, mars 14, 2007

ÞREYTTUR DAGUR!!!

Úff, ekkert smá skrítinn dagur eitthvað. Fyrsta sinn í morgun sem ég lendi í svakalega miklum vandræðum með að sofna ekki undir stýri!! Ég hef aldrei skilið það að fólk nái að sofna í bílstjórasætinu en í morgun fékk ég þessa rosalega óþægilegu tilfinningu að langa bara til að leyfa mér að dotta. Þetta er eitthvað það óþægilegasta sem ég hef lent í, svo mikið er víst.

Fyrstu tvær kennslustundirnar voru algjör martröð. Hefði svo auðveldlega sofið fyrir framan allan nemendahópinn. Ætti nú ekki að vera neitt sérlega þreytt því ég sofnaði á skikkalegum tíma í gærkvöldi og lagði mig seinni partinn. Spurning hvort maður sé að soga í sig þessi veikindi sem fara eins og eldur um sinu út um allan skóla.... allavega er ég með hausverk í fyrsta skipti í óralangan tíma á minn mælikvarða.

Gott gullkorn í morgun - nemendur geta verið svo ótrúlega hreinskilnir:
Nemandi á miðstigi: ,,Hugrún, hefurðu verið að bæta á þig undanfarið?" (fannst þetta orðalag hennar nógu fyndið eitt og sér)

Ég: ,,Nei, nei það held ég ekki.

Nemandi: Nú hvað er þá þetta og mænir á magann á mér?

Ég: Þetta er maginn á mér.

Nemandi: Sérðu ekki hvað hann hefur stækkað?

Ég: Jú jú ég hef alveg orðið vör við það.

Nemandi: Nú af hverju segirðu þá að þú hafir ekki bætt á þig?

Þá var bekkjarsystur hennar nóg boðið og skerst í leikinn: ,,Maginn á henni er að stækka af því að hún er ólétt!!!"

Nemandi (aftur sú sem hóf samtalið): Nú, ég vissi ekkert um það. Hver er þá faðirinn?

Ég: (alveg að detta í hláturskrampa) Maðurinn minn!!!

Nemandi:

.... og þar með lauk því samtali!!! :-D

Annars þétt skipuð dagskrá fyrir helgina. Jarðaför, messa og gigg hjá karli mínum!! ... og svo á stefnuskránni að fara á milli dagskrárliða í fiskibollunám hjá ömmu. Skal læra að gera þær í eitt skiptið fyrir öll því eins og ég segi, að mínu mati eru fiskibollurnar hennar þær einu ætu í bransanum og nú á að meika það. Ætla að búa til lager undir dyggri leiðsögn ömmu og eiga í frysti. Svo þarf ég smá aðstoð til að halda áfram með eitt af þessum hundrað ókláruðu prjónastykkjum. Segið svo að það séu ekki smá húsmóðurgen í manni eftir allt saman......

mánudagur, mars 12, 2007

Orlofsferð örþreyttra húsmæðra

Komin heim úr kvennareisunni miklu, 39 konur ásamt Ágústi traustum bílstjóra okkar á Geitaskarði lögðu af stað frá A-Hún á föstudaginn. Mikil eftirvænting og tilhlökkun í hópnum :)

Fyrsta stopp var auðvitað Ríkið á Blönduósi. Ég lét það vera í þetta skiptið líkt og síðustu mánuði og næstu mánuði :) og síðan lá leiðin til Rvk þar sem sjoppurnar voru þræddar á leiðinni og niðurstaðan um 5 klst. rútuferð.

Allar dauðfegnir að komast á hótelið og þar biðu okkar þessar líka fínu gjafakörfur og fólk ýmist hallaði höfði sínu á hótelinu og aðal orkuboltarnir kíktu á næturlífið. Ég valdi fyrri kostinn í þetta skiptið.

Vöknuðum fyrir allar aldir á laugardaginn og fórum í Mekka Spa, annars vegar í Kópavog og hins vegar á Hótel Sögu. Ég tilheyrði þeim hópi sem fór í Kópavoginn og þar fengum við allar nudd. Þarna voru fjórir nuddarar Indverji, asískur maður og tvær íslenskar konur og ég lenti á asíska manninum. Veit ekki hver andskotinn hljóp í mig, kannski einhver smávegis rasismi en líka af því að ég var ófrísk en ég allavega varð eitthvað óróleg.... OG SVO HÓFST NUDDIÐ. Naut í botn og reyndi eftir fremsta magni að slappa af ÞANGAÐ TIL ... að ég veit ekki fyrr en litla dýrið vippar sér uppá bekkinn og fer að labba ofan á mér já og nokkur svona nett hopp. Ég hélt ég yrði ekki mínútunni eldri, því á dauða mínum átti ég frekar von á en þessu og varð svo mikið um að ég þorði ekki einu sinni að segja manningum að ég væri ófrísk. Enda litlar líkur á að hann myndi skilja mig því mér fannst hann bara tala einhverja kínversku við mig, en fattaði reyndar seinna að þetta var íslenska með kínverskum hreim einhverjum.

Litla bumbudaman mín varð ekkert hin hressasta, kannski ekki skrítið, og barði mig alla að innan og örugglega reynt að kalla hleypið mér út og ég alveg miður mín yfir þessari lífsreynslu og kom bara föl út og þegar karlinn karlaði í næstu dömu ætlaði varla nokkur einasta kona að þora með honum inn því svipurinn á mér var eitthvað skrítinn....

Þá kom að því að fá veitingarnar og sé ég þarna dýrindis melónubita og næli mér í einn en skil svo ekkert í því hvað var lítið á bitanum. Horfi þá betur ofan í skálina og spýti út úr mér fjandans melónunni því ég var að borða upp úr helvítis ruslaskálinni. OJ OJ OJ. En ég er allavega lifandi ennþá þannig að mér hefur ekkert orðið neitt rosalega meint af.....

Eftir Mekka Spa lá leiðin uppí Kringlu og þar var debetkortið aðeins straujað. Hafði þessa fínu afsökun að fötin mín séu öll að verða of lítil á mig!! Þaðan lá leiðin uppá hótel með smá viðkomu á tveimur stöðum og þar fengum við dýrindis pizzur og Heiðar snyrtir mætti á svæðið og kenndi okkur ýmis bellibrögð og skyggndist inní hugarheim okkar :)

Eftir fyrirlesturinn voru allar frekar þreyttar og afslappaðar eftir morguninn þannig að flestir tóku leggings á þetta og svo kom að því að hafa sig til fyrir mat, sýningu og ball. Maturinn var æði, Tina Turner sýningin kom mikið á óvart, fannst hún virkilega skemmtileg og ballið svona laladúdú. Hljómsveitin ekkert yfirgengilega góð en ég allavega tók danspor og það er meira en ég hef gert síðustu mánuði. Eftir það hélt ég uppá hótel að lúlla og vaknaði eldspræk í morgunmat morguninn eftir. Engar áhyggjur af þynnku á mínum bæ :) Hópurinn hélt í Smáralindina og var ég bara nokkuð spök með kortið. Heimferð eftir það, og hópurinn ekki alveg jafn sprækur og á leiðinni til Rvk :) Þegar heim kom mátti sjá eftirvæntingarsvipinn á körlunum í plássinu, örugglega allt í uppnámi á heimilinum, ni ætli það en við allavega ennþá örþreyttar húsmæður en samt mjög glaðar og endurnærðar húsmæður eftir frábæra ferð.

föstudagur, mars 09, 2007

Brottför eftir þrju korter

** Pínu stund í brottför og orðin svaka spennt!!

Fréttir dagsins í mínum huga, ykkur finnst þær ekki spennandi eins og mér:
ÉG FANN GRÁU PEYSUNA MÍNA, já eða reyndar Jonni og reyndar ýmislegt fleira :-D
Stundum leitar maður langt yfir skammt, ef ég man rétt þá sat ég uppí rúmi með makkann (ekki Binna Bjarka heldur tölvuna) ;) þegar ég bloggaði að peysukvikindið væri týnt og hún ekki lengra frá mér en undir rúmi og búin að una þar hag sínum vel í nokkrar vikur :)

** Ef það er eitthvað sem litla barnið okkar mun kannast við þegar það fæðist þá eru það sálmar á borð við Hærra minn Guð til þín, Allt eins og blómstrið eina og fleiri!!!! Ég hef aldrei á ævinni spilað í jafn mörgum jarðaförum eins og eftir að ég varð ófrísk. Bæði eru það athafnirnar sem organisti og svo hef ég haft nóg að gera með flautuna líka. Við erum að tala um á annan tug athafna þannig að ég er ekkert viss um að þetta litla kríli búist við mikilli stuðveröld. Á daginn hlustar það svo á hljóðfærablástur hægri vinstri og barnasöng á morgnana svo ef það er ekki gefið fyrir tónlist þá held ég að það muni ekki telja óhætt að koma út í þennan furðuheim.

** Alveg fáránlegt skeið sem ég er á núna. Ég fer að pissa og get svo svarið að ég er varla búin að hífa upp um mig buxurnar þegar mér finnst ég þurfa að pissa AFTUR. Þetta er alveg að gera mig vitlausa..... Úff hvað ég verð fegin þegar þvagblaðran fær sitt pláss aftur .....

....... en nóg um það. Ætla að taka Leiðarljós þangað til ég fer. Vildi að ég gæti farið inní sjónvarpið og kálað Roger Thorpe. Ég veit að þið eruð sammála mér laumuhorfararnir ykkar, þorið bara ekki að viðurkenna það ;)

fimmtudagur, mars 08, 2007

Fimmtudagur til frama

Námskeiðið búið og gekk fínt. Skondið oft hvað maður tekur langan tíma í að stressa sig á einhverju og svo allt í einu er það bara búið á einu augnabliki :)

Mamma er svo "elskuleg" að gera uppreisn við kassana mína, á nefnilega dáldið marga svona um hvippinn og hvappinn heima hjá henni, með alls konar drasli í og nú hendir hún einum og einum í mig sem gerir mér ekki annað kleift en að fara í gegnum þá, henda og hirða. EKKI ER PLÁSS HEIMA HJÁ MÉR FYRIR ÞÁ :/

Kemur ýmislegt skemmtilegt upp úr þeim, t.d. fann ég í gær 3 gömul gleraugu, fullt af skartgripum, gömul dramatísk sendibréf og DVD-disk sem ég gerði dauðaleit af síðustu daga því mig langaði svo að skanna hann fyrir námskeiðið. Alveg týpískt að finna hann sama kvöld og námskeiðinu lauk.

Jonna finnst held ég alveg lúmskt gaman af þessum kössum líka. Hefur allavega fengið að sjá margt skondið koma upp úr þeim, t.d. ca 5 gsm síma, ÉG ER EKKERT AÐ DJÓKA þegar ég tala um að líftími þeirra í mínum höndum sé hálft ár!! ... og talandi um það þá fékk ég loksins nýjan á þriðjudaginn þannig að nú get ég talað aftur í símann og sent sms vandræðalaust og þarf ekki að byrja ÖLL símtöl á síminn minn er sko bilaður og símtalið slitnað einni mínútu seinna...... Bara pirrandi, en ég er búin að gera fögur fyrirheit um að passa þennan rosa vel. Jonni setti hann í band svo ég missi hann í það minnsta sjaldnar, veit náttúrulega að það þýðir ekkert að lofa að missa hann aldrei.

HLAKKA TIL Á MORGUN :) Dekur, dekur og dekur framundan hjá mér á meðan karlinn verður sendur að vinna fyrir dekrinu ;) og Hallbjörg fer í vist á Blönduós ásamt þeim Ripp, Rapp og Rupp að hluta til (Gabríel, Víkingi og Þórði)!! Úff það verður fjör hjá múttu á meðan við Hrefna og tæplega 40 aðrar konur verðum með tærnar uppí loft í nuddi, góðum mat, verslunarferðum og fleiru :)

þriðjudagur, mars 06, 2007

... Dagurinn í dag ...

** Jæja þessi eftirmiðdagur fer í að leggja lokahönd á námskeiðsundirbúning. Kominn nettur fiðringur í mann því það eru víst rúmlega 20 manns skráðir til leiks :-/ Átti frekar von á að fá svona í kringum 10 manns, en það er samt auðvitað ennþá skemmtilegra að fá þennan fjölda uppá tónlistarstemninguna að gera. Meira stress samt :) en örugglega að mestu leyti bara af því að ég er að gera þetta í fyrsta sinn. Þetta er auðvitað ekkert öðruvísi en að labba inní hverja aðra kennslustund nema í þetta skiptið eru nemendurnir fullorðið fólk og væntanlega miklu þægari :-D Efast um að ég sjái á eftir einhverjum uppá borð eða í eltingarleik eða einhverju slíku ;)

** Við munum bara eiga einn bíl frá og með deginum í dag. BMW-inn er kominn á vetrardekk, og ekki ætti snjórinn að stoppa mig 7-9-13!! ... og dáldið skondin saga að segja frá sölunni á Toyotunni því Jonni var að spila á Grundarfirði um helgina og í Staðarskála röltir einhver gaur til hans og spyr hvort hann vanti ekki varahluti í Toyotuna.

,,Nei" sagði karlinn minn, ,,það væri nær að ég seldi þér bílinn"!!! Gaurinn spyr hvað hann vildi fá fyrir bílinn og þegar Jonni segir honum það segist hann bara ætla að fá hann :-D

** Það er endanlega komið á hreint að við hjónaleysin erum að fara TVISVAR til London og þegar ég fór að spá í þetta þá verð ég búin að fara 5 sinnum á 11 mánuðum þegar heim kemur úr seinni ferðinni. Það er ekki alveg í lagi með mann!! Fer til ljósunnar rétt fyrir fyrri brottför og vona svo innilega að allt verði í góðu lagi!!

Kveð í dag mun hressari og orkumeiri en síðast :)

laugardagur, mars 03, 2007

ÞREYTUTOPPUR

.... ég er alveg voðalega voðalega þreytt eitthvað núna. Finn bara með hverjum deginum sem líður hvað ég er bara alls ekki að höndla alla þessa vinnu mína svona á mig komin. Veit bara ekkert hvernig ég á að minnka við mig. Jafn erfiður tímapunktur fyrir alla staði að fá forföll fyrir mig en það á samt ekki að vera minn höfuðverkur. En maður kom sér í þetta og þá verður bara að taka á því. Ég er svo sannarlega ekki ómissandi og fjarri því, en auðvitað er ekkert tónlistar-, grunnskólakennari né organisti laus á næsta horni í svona litlu bæjarfélagi....

.... rosalega leiðinlegt að segja þetta en mér langar heldur liggur við ekkert heim eftir erfiðan vinnudag því ég veit að þar bíður þvotturinn sem ég setti í þvottavélina ennþá inní þvottavél, óbrotni þvotturinn fer ekki sjálfur af snúrunum, svefnherbergið alveg jafn mikið á hvolfi eins og þegar ég fór út um morguninn, aukaherbergið í sömu óreiðunni og alla hina dagana, gólfin jafn óhrein og daginn áður og .....

.... kem heim horfi í kringum mig og læt þetta fara í taugarnar á mér en einfaldlega hef ekki meiri orku afgangs þannig að næsti dagur tekur bara við. Vildi stundum að þetta gerðist af sjálfu sér. Æi ég er pínulítið að bugast á þessum tímapunkti en svo getur líka vel verið að ég verði allt öðruvísi upplögð á morgun og finnist ég geta sigrað heiminn. Veit ekki.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Einhver !?!

Ekki vill einhver vera svo sætur að fara fyrir mig í 66 Norður í Faxafeni, helst á morgun en allavega fyrir mánudag?
Sá auglýsta lagerútsölu m.a. á ungbarnafötum og langar alveg voða voða voða mikið að eignast fyrstu fötin á litla krílið okkar :) Myndi að sjálfsögðu láta viðkomandi hafa pening og upplýsingar um kyn barnsins ;)

Annars allt alveg æðislegt á þessum bæ :) Fórum í 20 vikna sónarinn í gær og þetta kom allt saman mjög vel út. Ég gerði mig að total fífli hjá ljósunni, eiginlega dáldið mikið vandræðalegt, meira um það á bumbusíðunni þegar ég kem í verk að skella inn vefdagbók eftir heimsóknina í gær :) Ég var alveg ótrúlega sniðug, BLINK BLINK, sendi karlinn til tannlæknis og óvart datt inní Tískuhúsið á meðan og splæsti á mig tveimur bolum og fór svo á snyrtistofuna ;)

Litla krílið virðist vera mikið partýljón og sparkar alveg hægri vinstri. Aðal fimleikaæfingarnar fara fram um kl.23 á kvöldin og það ákvað að halda smá sparkæfingu fyrir pabba sinn í gærkvöldi þannig að hann er búinn að fá að finna líka :)

Annars nóg um að vera á bænum, stefnir allt í að við séum að fara ekki bara einu sinni heldur tvisvar sinnum út í apríl :-D Þetta er nú meiri flandrið á manni alltaf hreint ..... en þetta lifi ég víst fyrir að mörgu leyti :) Enda kemur það heim og saman við stjörnukortið mitt og Gunnlaugur nefndi sérstaklega að ég yrði hreinlega að ferðast reglulega eða búa úti til að halda lífi :)

Kveð í kvöld, þarf að klára baksturinn sem hófst svo glæsilega í gær :) Var aðeins of mikið að tala við tengdamóður mína og segi henni að skella ofninum á 200 í staðin fyrir 100 gráður. Get alveg sagt ykkur að það endaði ekkert vel :)
Gott í bili.