Get Your Own! | View Slideshow

Hugrún & Nonni

föstudagur, október 24, 2003

Seinni hálfleikur

51. Einu sinni þegar ég var í frekjukasti missti amma á Kringlu þolinmæðina á mér, “henti” mér út og lokaði. Mér var nett sama um það en að hún skyldi setja mig út skólausa þótti mér fyrir neðan allar hellur.
52. Ég hef það á samviskunni að hafa heftað puttann á Lindu Hlín. Það var ekki vinsælt!
53. Ég hef vægast sagt unnið víða um ævina. Ég hef haft marga góða yfirmenn en sá sem skarar fram úr á allan hátt er Palli í Sparisjóðnum á Hvammstanga.
54. Mér tekst sjaldnast að þegja þegar sá kostur er vænlegastur í stöðunni.
55. Þegar ég var að vinna í Kaupfélaginu spurði ég eitt sinn Jóhann Örn hvort einhver mætti leysa mig af á kassanum í 5 mín.svo ég gæti verslað. Nota bene, það var ekkert að gera. Hann var eitthvað illa fyrir kallaður og svaraði neitandi. Ég varð ekki beint par ánægð og sagði “Nú jæja, ég versla þá bara framvegis í Vísi, ég get farið þangað eftir vinnu”. Hann skipti um skoðun á sömu sekúndu og ég gat verslað. Jíha.
56. Ég man afmælisdaga hjá ótrúlegasta fólki, jafnvel liði sem ég þekki ekki neitt, en ég get ekki með nokkru móti munað bílnúmer. Ekki einu sinni mitt eigið!!
57. Fyrsti strákurinn sem ég man eftir að hafa verið skotin í er Beggi á Sauðanesi.. Já já .. glottið bara ... rosa fyndið.
58. Mér finnst nokkuð merkilegt að eiga langömmu og langafa á lífi, og langamma þar að auki ekki orðin áttræð.
59. Nám hefur aldrei verið vandamál hjá mér. Langflestar einkunnir á bilinu 8-9, oft stærðfræðin sem fer undir þann skala en íslenskan yfir.
60. Ég hef unnið í Unglingavinnunni, Kaupfélaginu, á skrifstofu Kaupfélagsins, Esso, Sparisjóðnum á Hvt, Skógarbæ, Pizza Hut, Rarik, Grunnskólanum á Blönduósi, Tónlistarskóla A-Hún, þjálfað frjálsar hjá Hvöt, á Árbakkanum og svo hef ég stokkið til þegar nauðsynlega hefur vantað á Hótelið á Blönduósi og í Félagsheimilið. Held ég sé ekki að gleyma neinu.
61. Mér finnst Leiðarljós skemmtilegt, og hana nú. Las á netinu hvað gerist næstu árin.
62. Ég var rosa dugleg að gera skammastrik þegar ég var yngri. Ég og Eva Björg bjuggum til leyniorðið paprikustrik um þá skemmtun.
63. Ég byrjaði að halda með Manchester United af því að Óli Ben og vinir hans héldu allir með Liverpool, Arsenal eða Everton.
64. Ég sá til þess að bróðir minn færi ekki í neina villutrú, hann heldur líka með ManU.
65. Ég hef einu sinni verið dökkhærð en það fór mér svo hræðilega að ég ætla að vera ljóska þangað til að ég verð gráhærð.
66. Ég er algjör skussi. Snillingur í að fresta hlutum fram á allra síðustu sekúndu.
67. Í augnablikinu get ég ekki hlustað á geisladiskana sem ég hlustaði sem allra mest á í Danmörku, ég fæ alltaf sting í magann því ég sakna svo margs þar. Efstur á blaði er nýjasti Sigurrósar diskurinn.
68. Einu sinni var ég svo reið út í Heimi bróðir að ég braut skál í tvennt. Ég þorði ekki að viðurkenna það fyrir mömmu þannig að ég sagðist hafa misst hana. Vonandi verður mér fyrirgefið ....!!
69. Ég er meira fyrir dökkhærða karlmenn en ljóshærða.
70. Einu sinni var ég á launum við að vera í fýlu ... múahahaha. Ég sagði starfinu þegar ég uppgötvaði að það er tímasóun dauðans.
71. Ég held ég virðist nokkuð opin og ófeimin en við nánari athugun er annað uppá teningnum. Ég get verið rosalega óörugg með sjálfa mig og hrikalega feimin.
72. Ég og Heimir bróðir erum alltaf að verða betri og betri vinir en okkar aðal ágreiningsefni er uppvask.
73. Ef hann vaskar og ég þurrka verð ég alltaf að byrja strax á því svo vatnið þorni ekki. Þá slepp ég tæknilega séð frá því að þurrka.
74. Uppþvottavél verður á forgangslista þegar ég fer að versla í búið.
75. Eitt af því versta sem ég veit er að henda hlutum. Mamma þolir það ekki.
76. Stundum stelst hún til að henda hlutum og stundum fatta ég það nokkrum árum seinna og verð alveg bandbrjáluð þótt ég hafi ekkert við hlutinn að gera. Hún vill samt ekkert alltaf kannast við að hafa hent hlutnum en ég veit nú betur.
77. Sennilega er ég ekki búin að fatta helminginn af því sem hún hefur stolist til að henda.
78. Ég elska Nings mat. Ef valið stendur á milli burger, pizzu eða Nings vel ég síðasta kostinn.
79. Ég verð sennilega aldrei almennilega góð í tónlist því ég á aldrei eftir að geta fókuserað á bara einn hlut. Þarf alltaf að vera með puttana í öllum hljóðfærum.
80. Mig langar einn daginn að gefa út geisladisk með lögum eftir mig. Er búin að semja slatta.
81. Textar er eitthvað sem ég get ekki samið. Einhver sjálfboðaliði??
82. Einu sinni þegar ég var í kjötborðinu í KH bað Jón Ísberg um bleikju. Ég sagði honum að hún væri ekki til. Hann benti á fiskinn en ég svaraði rosalega örugg með mig og hneiksluð á fávísi hans að þetta væri nú silungur en ekki bleikja.
83. Rjúpur eru MJÖG mikilvægur þáttur hjá mér á jólunum. Ef ég redda þeim ekki get ég alveg eins borðað hafragraut.
84. Treysti á ykkur skotveiðimenn, annars verð ég að skjóta sjálf og þá er nú ekki gott að vera nálægt.
85. Ein af ástæðunum fyrir því að ég kláraði stúdentsprófið á 3 árum var af því að mér var svo illa við eina ónefnda manneskju sem var í skóla á Króknum. Ég gat ekki hugsað mér að þurfa að vera nálægt henni mikið lengur.
86. Mér er ekki illa við hana í dag. Batnandi mönnum er best að lifa!!
87. Ég var sportisti dauðans í grunnskóla. Var í frjálsum, fótbolta, handbolta og körfubolta. Mætti svo líka í frjálsu tímana.
88. Ég strauk að heiman þegar mamma bannaði mér að fara í skátana.
89. Í framhaldsskóla fannst mér þáverandi kærasti meira spennandi en íþróttahúsið.
90. Smá saman minnkaði íþróttaiðkunin og formið í samræmi við það.
91. Núna er ég að komast aftur á skrið ...
92. Það getur verið frábærasta skemmtun að horfa á mig leggja bíl ... Ég er einhver al-lélegasti “lagningamaður” sem sést hefur til.
93. Fólk man oftast eftir mér útaf spékoppunum mínum, smilehulerne.
94. Mér finnst strákar sem eru leiðinlegir með víni mesta turn off ever. Ég missi ótrúlega oft áhuga á strákum þegar ég sé þá fulla.
95. Ég hef komið til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Englands, Frakklands, Hollands, Belgíu, Lúxemborgar, Spánar, Ítalíu, Sviss, Portúgals og Póllands.
96. Ég hef farið til útlanda á hverju einasta ári síðan ´97. Ég ætla ekki að brjóta þá hefð og er búin að fara tvisvar í ár. Ég elska að skoða heiminn og sennilega fer ég næst til Finnlands. Svo fer að koma tími á Austur-Evrópu eða eitthvað í Asíu.
97. Hver ætlar með mér í interrail áður en ég verð 25.ára?? Ardís ertu ennþá til??
98. Markmið mitt í lífinu er að vera sátt við sjálfa mig og verða aldrei bitur yfir að hafa sóað því í einhverja vitleysu. Ég er mjög ánægð með þau ár sem ég hef þegar lifað.
99. Ég tel að þeir erfiðleikar sem ég hef gengið í gegnum um ævina hafi þroskað mig sem einstakling, þannig að í rauninni tel ég mig hafa grætt heilmikið á þeim ef þannig er litið á málið. Maður sér það bara oft ekki fyrr en eftirá.
100. Þeir sem voru svo hugrakkir og duglegir að lesa allar pælingar ættu að vera mikils vísari um mig núna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home