Get Your Own! | View Slideshow

Hugrún & Nonni

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Myrkfælni ....


Segið mér, er eðlilegt að vera ennþá svona déskoti myrkfælin :)
Ég var hreinlega að pissa í buxurnar þegar ég þurfti að labba ein út úr skólanum í gærkvöldi *í niðamyrkri*!! Gat ekki annað en leitt hugann að því hvað myndi gerast ef einhverjum nemanda mínum hefði nú t.d. dottið í hug að setja sig í Screamstellingar og drepa mig. Stundum getur hugmyndaflugið farið með mann á villigötur!!

mánudagur, ágúst 30, 2004

Dekurlíf

Þessi helgi var nú bara mesta dekurhelgi EVER :) Mín skellti sér í bæinn og hafði það super dejligt. Fór í matarboð á föstudagskvöldið og smakkaði humar, skötusel og skötuselsbringur í fyrsta sinn og var alveg hlessa á því hvað það smakkast vel!! .... Ekki var svo minna dekrað við mann á laugardagskvöldinu ;)

Danski gestakennarinn minn er mættur á svæðið. Hún er hinn mesti snillingur og á alveg eftir að bjarga Blönduósdvöl minni þennan mánuðinn ... !! Annars er ég að fýla kennsluna í ræmur. Er líka alltaf meira og meira hissa á því hvað það er gaman að vera í unglingakennslunni. Einhvern tímann lét ég út úr mér að ég ætlaði aldrei að koma nálægt þeim pakka en nú eru hlutirnir bara þannig að ég vil helst kenna sem mest á því aldursstigi. Jebbs ... Alltaf kemur maður sjálfum sér á óvart.

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

ÓL 2004

"Hann er svo harður að fæturnar á honum eru harðari en stál!!!"
Hvernig er það hægt?
"Ég veit ekki hvort þær eru vinkonur? Kannski eru þær perluvinkonur. Kannski eru þær bara ekkert vinkonur. Svo getur það líka verið allt þar á milli"
Það myndi ég líka halda!!

Mér finnst þulirnir sem lýsa frjálsum íþróttum á ólympíuleikunum vera að fara á kostum ...!! Það veltur upp úr þeim hver vitleysan á fætur annarri og ég hlæ mig máttlausa. Þeir eiga sko ekki í vandræðum með að missa sig úr æsingi yfir hinum ýmsu greinum.

Strandblak er einhver alvinsælasta íþróttagreinin í augum karlmannanna :)Ég skil samt ekki af hverju það er frekar vinsælt en aðrar greinar því konurnar eru ekkert meira fáklæddar þar en í mörgum öðrum greinum. Hins vegar mætti hafa karlana bera að ofan......

VEIT EINHVER UM FAR TIL REYKJAVÍKUR Á FÖSTUDAGINN?

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Hvenær skal þegja? Hvenær ekki!!

Um daginn sat ég í nokkuð stórum hópi og umræðuefnið söngur!!
Umræðuefnið var Söngskóli Reykjavíkur.
Þeir sem þarna sátu höfðu sína skoðun um skólann á hreinu. Hrein villimannastofnun þar sem fólk lítur stórt á sig og mikið gert upp á milli fólks...
Ég sat hljóð og sagði sem minnst. Var algjörlega ósammála mörgum af þeim rökum sem sett voru fram en vildi samt ekki uppljóstra því að ég hefði verið nemandi skólans... Langaði að heyra hvað fólkið hefði að segja, án þess að það væri að passa sig á að móðga mig ekki.

Merkilegt hvað fólk getur sett sig á háan hest og dæmt hluti sem það þekkir ekki... Úr þessum hópi hafði enginn lært í skólanum ... en Jón sagði .. og Gunna sagði ...

Í dag var fyrsti fulli kennsludagurinn hjá mér. Það vottaði fyrir smá stressi í sambland við spennuna. Skipti úr gírnum eftir kennslu í 2. bekk og stökk upp stigann að kenna 9. bekk.

Nýjar stellingar eftir hverjar 40 mínútur.

mánudagur, ágúst 23, 2004

Menningarnótt

Menningarnótt!!
Hvað get ég sagt???

Fyrir mér var þetta einhver mesta snilldar upplifun sem ég hef upplifað lengi, lengi. Bæjarlífið iðandi af menningu og tónlist er eitthvað fyrir mig :) Ég mun pottþétt verða árlegur gestur á þessa uppákomu hér eftir ...

Grunnskólalífið er komið á fullt!! .... Ég get ekki sagt annað en að mér lítist vel á komandi átök. Ég þori samt ekki að fara út í neina öfgafulla skipulagningu því ég er orðin ansi mikið hrædd um að ég sé á leið í verkfall!!

Hvað gera bændur þá????

En mikið déskoti gengur mér illa að komast í blogggírinn eftir sumarfrí. Ég bara sest niður, stari á skjáinn og næstum drep sjálfa mig úr leiðindum af þessum fáu línum sem ég kem frá mér!! ... Er búin að komast að því að ég er alveg hætt að gera einhverjar gloríur af mér, meira að segja hætt að vera utan við mig!! Held að dagar mínir sem bloggari fari að verða taldir.

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Mission completet!!

Mission completet :) ....

Nú er hinu formlega bloggsumarfríi mínu lokið og verður hér með hafist handa við að blogga af öllum lífs og sálarkröftum. Ég er reyndar ekki farin að sjá fyrir mér að geta sagt einhverjar krassandi sögur frá bæjarlífinu á Blönduósi en eitthvað hlýtur stelpan að geta bullað, í það minnsta logið ef mikið hallæri verður á bloggefni.

Síðustu dagar hafa verið ansi mikið mjög ánægjulegir!!
Sumt bloggvænt - annað ekki!! ;)

Skellti mér suður á föstudagskvöldið og átti frábæra helgi í borginni. Laugadeginum eyddi ég í Nevada Bob og sundi með litla bróður og kvöldinu með Hávaða stelpunum mínum. Þær klikka ekki frekar en venjulega!! Elduðum þennan líka dýrðarinnar mat og fórum enn einu sinni yfir ókomna frægðardaga okkar í blakinu og hljómsveitinni. Síðan hélt ég ásamt hinni ólofuðu vinkonunni í Hávaða á djammið ...

Kóranámskeið í Skálholti var á dagskránni frá mánudegi til dagsins í dag. Algjör snilld!! .... en ég ætla nú að hlífa öllum við að skrifa um það því hver botnar í hvernig ég get haft áhuga á öllu þessu tónlistarbrasi!??

Well .. Ég er byrjuð að vinna af fullum krafti í skólanum. OH MEN ...

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

... og hún skipti um skoðun!!

Blönduós er inn í mínum huga þessa dagana... Það sem ég get væflast með skoðanir mínar á þessum blessaða bæ. Þetta er ekki normal!!

Ég er byrjuð að undirbúa kennsluna af fullum krafti. Vá, ég ætla að breyta mér í súpermann!! .. Það er í endalaust mörg horn að líta. Niðurstaða dagsins: Mér mun ekki leiðast í vetur. Það verður miklu meira en nóg að gera hjá mér í kennarastarfinu ... Fyndið samt hvað hinir og þessir útí bæ eru alveg búnir að ákveða hlutina fyrir mig. Fólk er að missa sig í að segja mér hvernig ég eigi nú að stjórna þessum bekk og hvernig ég eigi að hafa hemil í þessu fagi o.s.frv. Ég ætla nú samt bara að vera kóngur í mínu ríki og treysta mínu eigin innsæi á því hvernig hlutunum skal háttað á mínum bæ.

Vinnan mín og hinar deildir fyrirtækisins gerðu sér glaðan dag í gær. Ég, Kristín I. og Daníel framkvæmdastjóri skipulögðum ferð fyrir heila klabbið. Dagskráin var hin mesta snilld. Við byrjuðum á að skipta öllum í fjögurra manna lið sem störfuðu síðan saman um kvöldið. Liðin kepptu í sandkastalakeppni í Selvík, all skemmtilegu boðhlaupi og að sjálfsögðu í golfi :) Svei mér þá ef ég get ekki lokkað nokkra í klúbbinn því liðið skemmti sér snilldarlega í golfi. Völlurinn var mjög vel nýttur, skurðir og gloppur engin undantekning þar á ... Minn hópur fór tvær holur á 32 höggum .. Ef ég sleppi því að láta fylgja með að við fórum aðeins tvær holur lítur það betur út að segja að við fórum á þremur undir pari vallarins. Hljómar óneitanlega betur!! .... Síðan var auðvitað grillað að hætti Valgeirs og Egils.

Well ... Höfuðborgin á morgun og kórstjóranámskeið í næstu viku.... Allt að gerast.

laugardagur, ágúst 07, 2004

Bærinn sem mikið sefur

Sú litla trú, sem ég hélt dauðahaldi í, um að vetur á Blönduósi væri af hinu góða hefur yfirgefið mig!! ..... Hvernig á ég að lifa næstu níu mánuði af í bænum sem alltaf sefur.....?? Ég er búin að halda fyrir sjálfa mig sannfæringarræðuna um að manni leiðist ekki ef maður ætlar sér það ekki ... virkar ekki!! Jú, jú ... ég skal búa á Blönduósi ef ég dag einn eignast mann og krakkagrisling(a) ... EN 22. ára snót saknar vina sinna úr borginni ... MIKIÐ!!

Mesta fjörið sem fyrirfinnst á Blönduósi þessa dagana er í Esso. Eldur og geðvonska íslenskra ferðalanga standa þar uppúr. Landinn er að missa sig!! .. Take a chill pill og slakið á í sumarfríinu .. jesús hvað fólk er að missa sig. Hef reyndar tekið eftir einu ... Þeir sem hafa æst sig sem allra mest og af minnsta tilefni hafa alltaf verið karlmenn. Í öllum tilfellum hafa líka eiginkonur þeirra tekið strauið út úr sjoppunni um leið og þeir byrjuðu að öskra .. OMG hugsa þær, ekki gera mig að fífli AFTUR!! ... og fyrst ég er farin að tjá mig um þetta get ég ekki annað en bent á snilldar pistil frá Makkaranum um "bráðskemmtilega" kúnna.

Hér með lofa ég sjálfri mér, geðheilsu minni og öllum öðrum að ég vinn ekki í sjoppunni næsta sumar.... Þetta blogg verður því til staðfestingar og allir þeir sem kommenta hér undir munu fá bjórkippu frá mér ef ég stend ekki við orð mín!!!

Byrja reyndar bráðum að kenna .... en verkfall er yfirvofandi!!! Það verður nú ljóti skandallinn .....

Nú er svo komið fyrir mér að ég er farin að velta vöngum yfir því hvað eigi eftir að láta tímann líða hraðar í vetur....
a) Allan septembermánuð verð ég með gestakennara frá Danmörku í heimsókn í dönskukennslunni hjá mér ... gott mál!!
b) Í september eru réttir um hverja einustu helgi ... snilld!!
c) Bráðum koma blessuð jólin .... ég er farin að hlakka til ..
d) Hugmyndir eru uppi um að setja upp tónlistarsýningu í anda Brilljantíns og bítlahárs og Eurovision sýningarinnar .... cool!!

Always look at the bright sides of live ...

Ég er að missa mig í ferðadraumum.... Hluti af gróða kennslukonunnar á Blönduósi eftir veturinn verður pottþétt undirlagður í ferðadrauma. Á alveg eftir að þvælast í interrail og svo væri gaman að taka eins og eina reisu um Asíu ... Hver vill koma með??? .... án djóks sko ....

Tvær næstu helgar verða tileinkaðar borgarlífinu ...!! Hávaðastelpur, væri ekki ráð að bjarga mér frá glötun .. Höldum gleði .. Vígjum langa laugardaga!! .... eða æfum fyrsta lagið!! Bíð spennt eftir viðbrögðum ykkar :) Eftir helgi fer ég svo á kórstjóranámskeið í Skálholti (virðulegt humm) ... held heim á leið og byrja að skipuleggja kennslu vetrarins (enn virðulegra .. jakk) og aftur til borgarinnar að upplifa menningarnótt í fyrsta sinn. Jebbs .. maður er víst ekki maður með mönnum nema að prófa það og þjóðhátíð ... Tek Eyjar um næstu verslunarmannahelgi ... á það alveg eftir.