Get Your Own! | View Slideshow

Hugrún & Nonni

fimmtudagur, september 29, 2005

Það er ekki í lagi ...


Það hlaut að fara að koma að því að ég tæki uppá einhverju skrítnu..

ÉG mætti til kennslu í 10. bekk í morgun og er vön að taka þangað með mér boxið með kennslubókunum þeirra og pennaveski. - Það skal tekið fram að ég var AFAR þreytt í morgun -

En jæja .. þegar ég er komin inní stofu, búin að leggja frá mér dótið og ætla að hefja kennslu, sé ég þá ekki að ég var með þverflautuna mína í staðin fyrir pennaveskið **hóst**

Svart pennaveski - svört þverflaututaska - ekki erfitt að ruglast - nema að taskan er svona fimm sinnum stærri en pennaveskið. HALLÓ!!

Já svona getur þetta verið þegar langt er liðið á vikuna og þreytan farin að segja til sín ...

Well ...

Föstudagur framundan og ég sé fram á hálf tómlega helgi því hann Heiðar minn ætlar alla leið á Neskaupsstað!! Fjúff - það verður skrítið að lúra ein í bólinu, vitandi af honum endalaust langt í burtu.

Sé fram á alls herjar tiltektir, leikæfingar og kortagerð. Endilega bjalla á mig ef einhver er í gírnum til að sansa nokkur kort og halda mér félagsskap :)

miðvikudagur, september 28, 2005

Undarlegt það ...

Mér finnst hálf undarlegt hvað suma dagana kjaftar í manni hver tuskan þegar kemur að því að blogga en svo koma heilu tímabilin þar sem maður sest niður við lyklaborðið, tilbúin að hleypa fingrunum af stað til að matreiða eitthvað ljúffengt en EKKERT skeður .... Þeir bara hreyfa sig ekki og spyr maður sjálfan sig hvað veldur.

Hvað gera fjölmiðlamenn í slíkum tilfellum, gúrkutíðum! Grafa upp eitthvað nógu fjandi ómerkilegt og reyna að matreiða það á áhugaverðan hátt, búa til eitthvað nógu krassandi ...

Í verstu gúrkutíðunum hef ég brugðið á það ráð að líta um farinn vel og oft gaman að hugsa "á sama tíma að ári - já eða fyrir ári". Fyrri hugleiðingunni verður varla svarað en þeirri síðari fljótt svarað. Í VERKFALLI - frekar eirðarlaus og peningalítil. Þökk sé guði fyrir hótel mömmu þegar það reið yfir ...

Jæja - ég held það sé kominn tími á að hætta að babbla um nákvæmlega EKKI NEITT! Vonandi kemur andinn svífandi strax á eftir svo bloggskrif með stuttu millibili geti hafist að nýju!!Kaninka - kveðjur með tjai ...

laugardagur, september 24, 2005

Klukk já..

Ég er ekki búinn að skrifa í óratíma en neyðist víst til þess núna útaf þessu klukk æði sem hefur gripið landann heljartökum.

1. Ég er ofurviðkvæmur en læt það eiginlega aldrei í ljós og einnig ofurþrjóskur en læt það í ljós.

2. Ég held að stefnan sé tekinn á kennarann hvað lærdóm varðar.

3. Ég er heppinn að vera á lífi. Meðað við aldur og fyrri störf.

4. Ég þoli ekki ljótar tær og konur með ljótar tær er turn off, það sama á við um putta.

5. Ég er það sem er kallað fíkill þegar ég tek mér eitthvað fyrir hendur þá geri ég það af alvöru.

Í kjölfar þess á ég að klukka 5 aðra og þá klukka ég Lindu Dagmar, Erlu Jakobs, Þórð Rafn, Stinna og Jón Örn ..

Oki bless í bili....

fimmtudagur, september 22, 2005

Klukk

Hef orðið vör við að fólk er að klukka hvort annað á bloggsíðunum. Ég var víst klukkuð af Thelmu og Indu !! :-/

Fékk eftirfarandi skilgreiningu:
Þú ritar 5 valdar staðreyndir um þig sjálfa sem fáir vita af :) *híhí* og klukkar svo 5 aðra, til þess eins að hefna þín!!!

OG eigi mun ég skorast undan ábyrgð.

1. Ég er sjúk í rautt. Á ógrynni af rauðum flíkum s.s. peysum, bolum, nærfötum, skóm o.fl. Nú og svo var ég að eignast rauðan bíl. Ætli ég sé rauðsokka?

2. Tengdamóðir mín heitir Hugrún - það finnst mér skondið því ég hef aldrei umgengist neina sem heitir þessu fallega nafni ;)Bara vön því að hafa Hugrúnu Bjarna í bænum og þar við situr. Svona til að toppa þetta heitir systir hans Heiðars auðvitað það sama og amma mín, Sigurbjörg.

3. Ég er ofur viðkvæm og ofur þrjósk.

4. Í sumar voru fimm tölvur á heimilinu mínu. Dálítið sjúkt ... í ljósi þess að íbúarnir voru fjórir og stundum sat hver í sinni tölvu.

5. Ég elska pistasíuhnetur ... njomm njomm.

Nú klukka ég Hrefnu Ósk, Kristínu Birgis, Lindu Hlín, Soffíu og Guðnýju Ebbu :)

mánudagur, september 19, 2005

Loksins!! ....

Jæja..

Nú eigum við hjúin tvo bíla (Heiðar er að sækja nýja gripinn í þessum rituðu orðum).

Þessi bílakaup eru búin að vera rather þreytandi. Erum búin að girnast marga bíla en aldrei náð að klára málið.. Fólk ýmist búið að selja bílinn, hætt við að selja eða ekki í takt við nútímann og hefur aðrar hugmyndir um bílaviðskipti en 99% af landanum.

Já og svo er auðvitað alltaf erfiðara að versla bíl þegar þarf tvo til að samþykkja kaupin :) en þetta hafðist nú allt saman fyrir rest.

BUT

Nú er drossían mín til sölu (snökt, snökt) og ég er bara hálf treg til að skrifa það því ég er ekkert að sætta mig við að láta hana frá mér. Þessi bíll er sko búinn að reynast mér vel og fara með mér og með mig víða síðustu ár. Ég er nú ekkert alveg á því að horfast í augu við að þetta er bara dauður hlutur.

SUMSÉ

Til sölu Toyota Carina E ´97, grásanseruð, ekin 164 þús, verðhugmynd 420 þús. (listaverð er 480 þús) en annars til í að skoða aðrar verðhugmyndir..

ANNARS

Áttum alveg frábæra helgi. Sædís Ósk (hans Heiðars) kom til okkar á fimmtudaginn og svo bættist Inga Rún (systir) við á laugardaginn. Má annars til með að skella inn einni mynd af þeim því þær eru jafn gamlar en önnur þeirra frekar lágvaxin en hin hávaxin og útkoman því ansi skondin :)

mánudagur, september 12, 2005

Ég er hér enn ....


Mynd dagsins: Hún Birgitta Sóley sem var alveg að fara á kostum þegar hún kom í heimsókn. Greinilega framtíðarsöngkona þarna á ferð eins og hún Svanhildur Sóley frænka :)

Get víst ekki hrósað sjálfri mér fyrir að vera duglega að blogga þessa dagana. Samt sem áður ýmislegt á daga mína drifið .... það vantar ekki!

Við hjúin fengum annars fyrstu næturgestina okkar um daginn. Nóg er plássið á bænum :) Ardís og Jónatan komu og gistu hjá okkur í tvær nætur og höfðum við það súpergott. Húsmóðurstaktarnir reyndu sitt besta.

Maður getur verið óttalegur kjáni eitthvað. Ennþá ýmislegt sem maður er að brasa í fyrsta sinn og reglulega fer fram alls konar tilraunastarfsemi, já svo ekki sé minnst á öll símtölin sem við hringjum í mæður okkar með spurningaflóðið.

Mamma hvernig er þetta aftur með sósuna sem þú gerir á fiskibollur, var hveiti í þeim?

Já eða ...

Mamma er í lagi að þvo handklæði á suðu?

Allavega svona spurningar sem þeim finnst örugglega frekar heimskulegar - en þetta hefst nú allt saman fyrir þrítugt :)

Svo býr sonurinn ennþá hjá okkur og erum við að vona að hann verði bara hjá okkur í vetur. Við byrjum ekkert á því að eignast ungabarn eins og hinir - neibb köllum hann frekar unglinginn á heimilinu því við erum alltaf með einhverja afskiptasemi :)

Svona er lífið á Húnabrautinni.
Lifið heil OG verið nú dugleg að nota kommentkerfið :)

fimmtudagur, september 01, 2005

Réttir eru málið ...


Ég hef bara fjandakornið ekki nokkurn skapaðan hlut að segja annað en að framundan eru réttir and I love it!! Þá kemur alltaf upp einhver bóndadurgur í mér því mér finnst unaðslegt að valsa um í skítagalla og gúmmístígvélum, gargandi huh huh á eftir rollunum og svo er dagurinn toppaður með því að setjast inní lödu hjá ömmu og afa þar sem maður fær sér heitt kakó og brauðsneið með soðnum eggjum og svona til að fullkomna daginn snæðir maður auðvitað líka nokkrar kleinur að hætti ömmu.

Annars fínt að frétta úr herstöðvum Hugrúnar. Í gær bauð ég kórnum mínum í heimsókn til mín og það var bara þrælskemmtilegt að fá hersinguna í heimsókn og ennþá skemmtilegra að loksins nennti einhver að sýna hljóðfærasöfnunaráráttu (vó langt orð) minni einhverja athygli. Gaman að sjá hvað þeim fannst skemmtilegt að fá að prófa og spurja um hljóðfærin mín sem ég hef drösslast með alls staðar frá á ferðalögum mínum um heiminn.

Svo er skondið að segja frá því að sú saga gengur á milli manna eins og eldur um sinu að ég sé ólétt!! But hah .. bíðið bara. Þessi meðganga verður þá víst gott betur en 9 mánuðir því ég er ekki með neina köku í ofninum :)