Get Your Own! | View Slideshow

Hugrún & Nonni

laugardagur, nóvember 26, 2005

Pota hvað ...

Jæja þetta fer nú að verða komið gott af poti, kitli og öllu þessu dótarí en að sjálfsögðu ætla ég ekki að skorast undan!!

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey
- læra meira, helst tónlistarnám!
- eignast börn
- skoða heiminn fyrir utan Evrópu
- vinna í lottó
- læra á bassa
- koma mér í betra form
- gefa út lag eftir mig

7 hlutir sem ég get gert
- spilað á nokkur hljóðfæri
- spilað kana svo tímum skiptir
- munað ótrúlegustu afmælisdaga
- gefið blóð
- snúsað og snúsað og snúsað
- horft á Leiðarljós
- talað dönsku

7 hlutir sem ég get ekki gert
- spilað á gítar
- fattað Þorgerði Katrínu
- breytt fortíðinni
- farið í lyftu
- keyrt snjósleða án þess að velta honum
- vaknað fersk á morgnana
- borðað kjötfars

7 hlutir sem heilla mig við hitt kynið
- hlýja
- einlægni
- augun
- hugsjónir
- virðing
- gáfur
- lyktin

7 orð sem ég nota mikið
- þú segir það
- svona er lífið
- jahá
- jæja
- haltu áfram að vinna
- gott hjá þér
- Heiðar

7 hlutir sem ég sé
- head-fónar
- möppur
- áin Blanda
- símaskrá
- hamar
- leikreglur í getraunaleik Hvatar
- ruslafata

7 manns sem ég pota í að gera eins
Tjah .. ég bara nenni ekki að pota þessu áfram!!

föstudagur, nóvember 25, 2005

Fæddur er drengur!!

Mig langar að nota tækifærið og óska þeim Hrefnu og Þórði, Gabríel og Víkingi innilega til hamingju með nýja fjölskyldumeðliminn!! Honum lá heldur betur á að koma í heiminn og fæddist kl.00.10 í nótt. Hann var tæpar 13 merkur og nefndur Þórður Pálmi í höfuðið á föðurafanum.

ENN OG AFTUR innilega til hamingju :) ÉG hlakka mikið til að fá ykkur heim aftur!!

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Ég á ekki orð ....

Mér var tjáð fyrir ekki svo löngu síðan að hann William Hung hefði fyrirfarið sér og ég var nú alveg miður mín yfir þessum kaldrifjaða heimi að hafa gert svona mikið grín af honum. Ég var nú ekki alveg að trúa þessu samt og fór á stúfana á netið til að fá þetta staðfest og fann þá ÞESSA grein sem staðfesti að kappinn væri látinn.

EN HVAÐ!!!

Sé ég svo ekki að hann er ekki dáinn fyrir fimmaura því félaginn er bara á Íslandi "sprellalæf" og ég er bara alveg hlessa á þessu öllu saman og hætt að botna upp né niður í þessu!! .. og efast um að ég muni trúa því hreinlega þegar mér verður tilkynnt um dauða einhvers.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

22. nóvember

Þá afmælisdeginum lokið í ár og dagurinn bara hinn ánægjulegasti!! Þakka að sjálfsögðu öllum kærlega fyrir heimsóknirnar, pakkana, sms-in, e-mailin og símhringingarnar þótt síminn hringi nú sjaldnar með hverju árinu sem líður eftir tilkomu tækninnar, gemsans og tölvunnar.

Annars er eitt sem stendur algjörlega uppúr eftir daginn!! Það eru nemendur mínir :) Þau voru dugleg að laða fram bros hjá mér í dag og mér þótti alveg ótrúlega vænt um hvað þau voru dugleg að gleðja litla hjartað mitt. Herlegheitin byrjuðu í 7. bekk þar sem ein af stúlkunum var svo góð að baka þessa líka myndar köku handa mér :) Þúsund þakkir fyrir það og alveg frábært að eiga eitthvað með kaffinu þar sem ég hef engar frægðarsögur af MÉR að segja í bakstrinum. Á leið minni úr kennslustofunni komu drengir úr 9. bekk og færðu mér eyrnalokka og spennur :) Greinilegt að þeir hafa skoðanir á "átfitti" kennara. Þá lá leiðin upp í 10. bekk til umsjónarnemenda minna og gott ef þeim tókst ekki kalla fram tár hjá mér. Þarna stóðu þau öll sömul, búin að stilla sér upp í hóp og sungu afmælissönginn á dönsku. Síðan beið mín Aftereight og afmæliskort á kennaraborðinu!! Þá hélt ég nú að ekki væri hægt að koma mér meira á óvart EN um kvöldið var bankað, og þegar ég kom til dyra stóðu þar stúlkur úr bekknum mínum með SVO FLOTTA köku og kerti. Reyndar slökknað á kertunum :) - var aðeins of lengi til dyra - en alveg frábært að geta endað daginn á að fá sér meiri sykur :)

Eins og ég segi .. hinn ánægjulegasti dagur og ég bara í skýjunum með hvað krakkarnir voru dugleg að gera eitthvað skemmtilegt!! TAKK FYRIR DAGINN.

mánudagur, nóvember 21, 2005

7 x 7

Eru 49 .... nei djók.. :) En Linda Dagmar "potaði" í mig.. frekar dónalegt en svona er þetta bara;)

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey.

Fara á leik með Liverpool .. eignast fleiri börn... gifta mig... mennta mig almennilega... ná 0 í forgjöf í golfi... læra á gítar og verða gamall.

7 hlutir sem ég get gert.

Get dansað... talað alltof mikið... eldað (takk mamma) ;)... unnið flest alla á íslandi í counter strike í one on one... verið endalaust í tölvunni... málað bara nokkuð vel og sungið ;)

7 hlutir sem ég get ekki gert.

Borðað hjörtu, lifur og nýru... get ekki hætt að naga neglurnar á mér... hoppað hæð mína... ropað stafrófið... talað kínversku... flogið og ekki snert bómull.

7 hlutir sem heilla mig við hitt kynið.

Hendurnar, ekki langir og mjóir nornafingur... gáfur... líkami... augun... hafi áhuga á íþróttum... tali ekki of mikið ( ég sé um það) :) og sjálfstraust.

7 orð sem ég nota mikið.

Einmitt... heyrðu... sko... jamm... úje... eins og hanski og jæja.

7 hlutir sem ég sé.

Tölvu... mús... möppur... íslensk-dönsk orðabók... penna... geisladiska og myndavél.

7 hlutir sem ég "pota " í að gera eins..

Hugrúnu Sif, Hrefnu Ósk, Stinna, Jón Örn, Sigurbjörgu systir, þetta er nóg..

Þetta var frekar erfitt ... en hafið það gott...

laugardagur, nóvember 19, 2005

How to make a fool of your self!!

Komin heim úr borginni - degi fyrr en áætlað var ..
Hef nú harla lítið um þessa ágætu ferð að segja annað en að vinningasöfnun gekk vel og stefnir í stórbíngó í Félagsheimilinu á fimmtudagskvöldið.

Fór að vísu frægðarför í Pennann að skoða danskar léttlestrarbækur og lenti í smá vééseni og hálfvitalegu samtali. Þar sem ég sá mér ekki fært að mæta í gær á einhverja formlega kynningu með kampavíni og snittum þá varð ég að fara upp á 4. hæð hússins í eitthvað afdalaherbergi og mér varð nú ekkert rosalega skemmt þegar konan opnaði lyftudyr og sagði við yrðum að fara upp að skoða þær.

"Uuuu er engin leið uppí þetta herbergi nema með lyftu?" spyr ég með skelfingarsvip.
"Nei því miður" svarar afgreiðsludaman
"Nú heyrðu, þá bara því miður get ég ekki skoðað bækurnar því frekar geng ég upp 150 hæðir en að fara inní þessa lyftu." sem by the way var ekki mjög traustvekjandi
"Nú svoleiðis, ó, heyrðu jú það er víst hægt að fara upp stiga" HALLÓ!!! Allt í einu var til stigi sem ekki hafði verið til nokkrum sekúndum áður, eins og hann hafi bara allt í einu galdrast í húsið. Upp stigann fór ég, valdi bækur og þá kom að því að fara niður og afgreiðsludaman segir.
"Þú ferð bara stigann og ég tek lyftuna því við komumst ekki til baka með lyklinum. ÉG verð að koma hinu megin frá og opna!!" Djöfull fannst mér fáránlegt að það væri hægt að fara inn um dyrnar með lyklinum en ekki út um þær, þvílík vitleysa, og áður en ég vissi af kom konan röltandi niður stigann á eftir mér.
"Heyrðu, lyftan er víst biluð, ég man allt í einu núna að ég get hleypt þér út um dyrnar!!!" Jæja, fleiri töfrabrögð. Kemur kanína upp úr hausnum á henni næst, hugsaði ég. Allt í einu var hægt að fara út um dyrnar sem ekki var hægt að fara út um nokkrum sekúndum áður og þá fór ég nú að óttast að ég væri stödd þarna með einhverri snarruglaðri konu sem gæti alveg eins tekið uppá því að drepa mig næst miðað við háttalag hennar.

Já það er öruggast að vera bara á Blönduósi!!!

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Að láta vita af sér

Það fer víst eitthvað lítið fyrir bloggi þessa dagana. Ég hef það mér til afsökunar að það er bara fjandi mikið að gera. Krakkarnir mínir (10. bekkur) eru með bingó í næstu viku þannig að við ætlum að skutlast með þau suður á morgun til að ná í vinningana sem þau eru búin að safna. Svo eru fundir hingað og þangað, á Skagaströnd, í tómstunda- og íþróttaráði og foreldrafundir svo eitthvað sé nefnt. Nú ekki má gleyma guðsrækninni í mér :) Er byrjuð með tómstundastarf kirkjunnar TTT (tíu til tólf) já og kirkjukórinn tekur sinn tíma. Mín bíður að halda næsta saumaklúbb og svo verð ég árinu eldri í næstu viku svo að ekki væri slæmt að gefa sér tíma til að baka eina köku eða svo. Ég er náttúrulega líka í minni vel rúmlega 100% vinnu og með flautunemanda ... og svona gæti ég haldið áfram.

Ég þarf væntanlega ekki að taka fram að ég er nú engin spes húsmóðir þessa dagana. Engar steikur bornar á borð, þvottahúsið á hvolfi og rykmaurarnir hafa það stórgott :)

Er þetta ekki annars að verða ágætis afsökun fyrir því að trassa bloggið?

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Merkilegt hvað ég las þetta greiðlega. Örugglega margt til í þessu!!

Svmkmaæt rnsanókn við Cmabrigde hkóásla þá stkpiir ekki mlái í hðvaa röð stfiar í oðri eru, það enia sem stikipr mlái er að frtsyi og stíasði stinaurfn séu á rtéutm satð.
Aillr hniir sfitarnir gtea vireð í aöljrgu rlgui en þú gtuer smat lseið það aðvuledlgea. Áæðsatn fiyrr þsesu er að mnnashgrniuun les ekki hevrn satf friyr sig hleudr oirðð sem hiled.

Ahtylisgtver

mánudagur, nóvember 07, 2005

Já þessi helv.... tippleikur : )

Eins og fram hefur komið átti konan mín góða helgi í tippinu og ég vil óska henni til hamingju með þessa fúlgu fjár sem í hennar hendur fóru.. >: ) Mér gengur hins vegar ekki eins vel í þessum leik en ég er búinn að gera upp hug minn og ég ætla að taka þetta á endasprettinum .. Það er ekki búinn að vera "friður" á heimilinu síðan um helgina því ég fékk færri rétta en Hugrún mín.. : ( hehe svona er þetta bara.

En já hún Sædís Ósk Heiðarsdóttir kom til okkar um helgina ásamt "litlu" systur minni . það var mjög gaman að fá þær. Það er alveg ótrúlegt hvaða pælingar veltast um í litlum 7 ára kolli og hvers konar spurningar og svör maður fær en það er bara gaman af því.. Ég er nú ekki vanur að láta kjafta mig á gat en sú stutta getur það :) Síðan er þetta litla dýr farið að siða pabba sinn til og hún talar stundum við mig eins og ég sé krakkinn.. hehe en hún er yndisleg.

Systir mín er 15 ára og er að ljúka grunnskóla. Hún er 10 árum yngri og ég og það er alveg ótrúlegt að hún sé orðin svona gömul og hún er farin að pæla í strákum dísus... t.d um helgina þá komu 2 ónefdir drengir frá Blönduósi að spyrja eftir henni "litlu" systur minni . dísus :) en þetta eldist víst eins og maður sjálfur. En það er samt ótrúlegt hvað ég helst alltaf fallegur ;) Gaman af þessu ..

Takk fyrir mig og hafið það gott ..

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Tippleikur

Ég er ekkert að monta mig eða neitt svoleiðis en ég fékk nú 11 rétta í tippleiknum um helgina. HUMM - HA.

Ég er heldur alls ekkert að atast í Heiðari eða monta mig af því að ég fékk hærra skor en hann um helgina. HUMM - HA.

En ég ætla að sleppa að monta mig af því sem ég fékk fyrir þessa 11 rétta. Ég var auðvitað alveg æsispennt að sjá hvað það myndi gefa mér og var svona líka hoppandi kát þegar ég sá upphæðina.

130 kr.

Ég veit bara hreinlega ekki hvað ég á að gera við allan þennan pening!!

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Check this out!!

Kíkið á þennan. Hann er nokkuð lunkinn :) Það tók hann reyndar 29 tilraunir að fatta að ég var að hugsa um þverflautu.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Nú er úti veður vont!!

Var að heyra eitt skondið en athyglisvert!!

Á annarri sýningu okkar á Bangsímon fór ein lítil hnáta lafhrædd heim og gat ekki hugsað sér að sitja útí sal og horfa því hún var svo hrædd við Kaninku!!!!!!!!!!! Mér datt ekki í hug að ég gæti verið ógnvekjandi í kanínubúning :)

Annars fátt annað að tala um en blessað veðrið sem stjórnar lífi ansi margra. Það fór víst ekki framhjá neinum að veðurguðirnir voru aðeins að hrekkja þá sem voru á ferðinni í kringum helgina. Í hvert skipti sem kemur almennileg hríð kemst ég ekki hjá því að glotta yfir hríðinni ógurlegu sem skall á þegar ég bjó í Kaupmannahöfn. Það kom nefnilega þessi rosalegi snjóstormur og allt ætlaði um koll að keyra. Lestir og strætó komust ekki leiðar sinnar og maður fékk á tilfinninguna að heimsendir væri í nánd.

Þennan snjóstorm myndi ég undir venjulegum kringumstæðum á Íslandi skilgreina sem smá hret og mér fannst það ekkert voðalegt að snjórinn næði mér hálfa leið upp að hnjám. Já svona er þetta nú misjafnt hvernig fólk upplifið veðrið!!

.. og svo er alltaf gaman að rifja upp eina fræga fótboltaferð. Ég stal frásögninni af blogginu hennar Lindu:

"hver man ekki eftir ferð okkar stelpna í 3. flokki kvk í Hvöt heim frá Akureyri eftir eitthvað mót... sátum fastar í 18 kl tíma að mig minnir með eitt epli eða svo til að bítast um... sömdum lag á leiðinni (blikandi stikur) ávallt stemmning á stelpunum... Svo þegar við komum heim á Blönduós tók hjálparsveitin á móti rútunni hjá Esso og fylgdi öllu liðinu heim... mig minnir að pabbi hafa haldið á mér og Hugrúnu heim þar sem við bjuggum svo nálægt."

Gaman að þessu ... eða ekki!!