Get Your Own! | View Slideshow

Hugrún & Nonni

mánudagur, febrúar 28, 2005

Ellin .....

ÁHYGGJUR DAGSINS:
*** Jófríður samstarfsmaður minn hélt að ég væri yfir þrítugt
*** Guðjón skólafulltrúi hélt að ég væri um og yfir þrítugt

Er ekki verið að djóka í mér? Það kom að því að maður lendir á þeim stað í lífinu að vilja frekar líta út fyrir að vera yngri en eldri..

EN mikið ætla ég að vona að ævin og heilsan endist mér til elliáranna. Ég er alveg búin að sjá að ef svo verður verða elliárin mín stórskemmtileg. Hvernig skyldi ég fá það út?

*** ÉG er spilasjúk ... og ég get ekki betur séð en að ellismellirnir séu alltaf að spila lomber og fleiri spil sem ég mun örugglega skemmta mér yfir.

*** Gamla fólkið föndrar fram í fingurgóma. JÁ - ég er spes, því mér finnst SVO gaman að föndra.

*** Ég er byrjuð að borga í VISTA, auka lífeyrissparnað, og sé fram á að verða multi millioner, þannig að ég ætla sko að flatmaga á ströndum heimsbyggðarinnar með bók í annarri og hasspípu í hinni. Kannski svona eins og einn vodkafleyg líka. Ég verð hvort sem er orðin svo gömul þannig að það gerir ekkert til þótt ég fái hrukkur eða húðkrabba í sólinni og það gerir ekkert til þótt maður fái sér í nokkrar pípur svona rétt á síðustu metrum ævinnar. Allavega skynsamlegast að vera ekkert í svoleiðis fikti núna og næstu 40 árin. (Nú gekk ég væntanlega fram af móður minni en til að fyrirbyggja allan misskilning er ég ekki að leggja blessun mína yfir ólögleg efni!!)

*** Ég er í kirkjukór og FINNST ÞAÐ GAMAN þannig að á sunnudögum í ellinni mun ég alveg hafa tíma og til að skemmta mér yfir messum og verð örugglega þessi eina sem lætur alltaf sjá sig í kirkju.

*** Harmonikkuklúbbur, tilheyra þeir ekki gömlu fólki? Ég mun spóka mig með eina.

JÁ - nú er bara að fara vel með sig og vona að þessi ár verði að veruleika. EN EKKI STRAX SAMT!! ...

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Ég er BÚIN að missa mig!!

Ég held ég sé algjörlega orðin galin í hausnum ... meira en venjulega!! :/

JÁ, kennslukonan er að vinna hörðum höndum að því að flytja inn fiðlu, JÁ ÉG SAGÐI FIÐLU, já og eina postulínsflautu líka frá frændum okkar (ekki alveg) Kínverjum..
In case ef einhver skyldi vera að velta fyrir sér hvort ég kunni á fiðlu, þá er svarið NEI ... OG ... ef einhver skyldi vera farin að velta fyrir sér hvern andskotann ég ætla að gera við fiðlu þá fékk ég þá flugu í hausinn að það væri örugglega rosalega flott að eiga eina uppá vegg, ef ég eignast nú kannski mitt eigið heimili fyrir rest. Postulínsflautumálið útskýrir sig sjálft.

Ég fór að sumsé á ebay sem er alveg stórhættulegt þegar maður á kreditkort...!!

Reyndar gengur mér eitthvað illa að koma greiðslu í gegnum bidbay, þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta mál endar allt saman.. Einhver sem hefur reynslu af því??

Svo ég fái nú ekki fast skot í comment kerfið mitt ;) þá er víst best að játa á sig að á tímum Veru Daggar (sem mun hafa verið ég í dulargervi) og stöðugra rifrilda milli mín og Binna Bjarka sagðist ég ALDREI ætla að gefa upp kreditkortanúmerið mitt í gegnum tölvu. En ég verð víst að éta það ofan í mig eins og margt annað :)

mánudagur, febrúar 21, 2005

Hinn vikulegi helgarpistill!!

Ég vil benda á að komin er ný könnun, já ótrúlegt en satt, hin var orðin ansi lúin ***

EN, smá helgarpistill rétt eins og venjulega.

Ég er alveg búin að sjá það að ég fer frekar "snemma" heim þegar ég djamma.
**Á laugardagsmorguninn kl.08:45 fékk ég sms "Vaki vindar, vaki fjallatindar, vaki dísir dala, dvergar hamra sala"
**Á sunnudagsmorgunn kl.07.23 var annar djammbolti í stuði og sendi "Hvernig stendur á því að það er svona mikið af fólki frá Dósinni í bænum?"

GOTT FÓLK. Það getur verið gaman að lesa vitleysuna sem fólk sendir manni þegar það er í góðum gír á djamminu, en snemma morguns, jeminn einasti, þá er sko hægt að bóka að ég sef værum blundi.

**** Á skíðum skemmti ég mér, tralallala ... JEBBS, fór á skíði eftir 10 ára hlé frá íþróttinni. Mér var skapi næst að hætta við þegar brekkurnar blöstu við mér, mikið agalega varð ég smeyk. EN af stað fór ég lét mig vaða niður brekkurnar. Það er alveg merkilegt hvað eitthvað sem maður lærir sem barn getur haldist í manni!! **minnumst samt ekkert á skautahæfileika mína sem hafa algjörlega tapast á kostnað skíðanna**

Í gærkvöldi byrjaði ég bakstur fyrir þriðjudaginn. JÁ, það veitir ekki af því að byrja snemma þegar ég er annars vegar í eldhúsinu því það er sko ekki minn heimavöllur. Ég held að mömmu hafi mest langað til að henda mér útúr eldhúsinu og gera þetta sjálf því ég var alveg með tíu þumalputta og á ákveðnum tímapunktum benti fátt til annars en að það yrðu bara bökuð vandræði!! Ég held ég geti bara ekki eignast börn því ég mun aldrei meika að halda afmælisveislu, skírnarveislu og hvað þá fermingu!!

föstudagur, febrúar 18, 2005

Esso-vakt

Hvað varð um þær yfirlýsingar sem ég gaf út að ég væri hætt störfum fyrir fullt og allt í Esso?? JÁ, maður spyr sig.

** Ég er ekki búin að gleyma hvað geðvondir kúnnar eru leiðinlegir.
** Ég er ekki búin að gleyma hvað það er leiðinlegt að gera bragðaref.
** Ég er ekki búin að gleyma hvað mér leiðist að setja á pylsu.
** Ég er ekki búin að gleyma hvað það er pirrandi að hlusta á fólk sem tuðar yfir að bensínverðið sé hærra á Blönduósi en hjá Atlantsolíu.
** Ég er ekki búin að gleyma hvað ég þoli ekki fólk sem ber matarverðið saman við verð á mat t.d. á videoleigum, þar sem fólk fær *by the way* enga diska og hnífapör og getur heldur ekki sest niður.
** Ég er ekki búin að gleyma að ég hef marg oft lofað sjálfri mér að hætta að standa í þessu.

SAMT er ég að fara að taka aðra vaktina á einni viku!! HUMM.

Góðu kostirnir
** Smávegis aukapeningur
** Fólk er almennt í skárra skapi á ferðalögum á veturna. Kenning mín er sú að það sé af því að það er minna að gera og ekki eins heitt í bílnum.
** Ég hitti fullt af fólki sem er gaman að hitta :) Það eru nefnilega líka til kúnnar sem eru ekki geðvondir.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Blogg til að blogga

Það er lítið hægt að bulla þessa dagana!!

Jú, ég spilaði Hættuspilið en það var ekkert hættulegt því ég vann þannig að ég var ekkert að æsa mig í þetta skiptið. Já og svo var Binni Bjarka ekki með því honum tekst alltaf að gera mig bandbrjálaða í þessu blessaða spili. Svo héldum við stúlkurnar á Bakkann og spiluðum Kana langt fram eftir nóttu og ég rétt marði Gretu, held að það hafi verið af því að það var bjór í húfi. Lagði mig alla í þetta, leigði njósnara til að skoða spilin hjá hinum og svona *reyndar ekki*

Status quo á Bakkanum. Ásmundur í Grænuhlíð söng fyrir mig (ekki í fyrsta skiptið) og gerði líka sína vanalegu tilraun til að fá mig til að taka dúett með sér. Ég skil ekki af hverju ég læt aldrei freistast. HUMM. En þetta var nú allt saman fest á filmu, ég dolfallin yfir söngnum *eða meira hlæjandi* að borða Sun Lolly í boði Hvatarmanna sem voru ekki með hugann við leik morgundagsins. USS.
Gat ekki annað en leitt hugann að því að hann Siggi Geit hefði sagt okkur stelpunum til syndanna og rúmlega það ef við hefðum svo mikið sem þefað af bjór 5 dögum fyrir leik. Rétti andinn þar.

laugardagur, febrúar 12, 2005

AKUREYRARFERÐ


Frábær sólarhringur að baki!!
Ég fór á Akureyri með unglingastigið á söngvakeppni SAMFÉS.

Ferðin byrjaði voðalega skemmtilega, Signý og Guðrún færðu mér blóm **snökt, snökt** mér fannst ekkert smá sætt af þeim :)

Þegar við komum á Akureyri fór ég beint á generalprufu með söngpíurnar mínar. Þær sungu svo vel að mín felldi barasta tár. Reyndi nú að láta sem minnst á því bera en ég held að stelpurnar hafi nú grunað mig :)

Eftir æfingu fór skríllinn og borðaði á Greifanum og þar hitti Anne Hyldal okkur, svo ég gæti nú gert þetta að smá námsferð í dönsku í leiðinni, hehe. Það var nú ansi gaman að sjá hvað krakkarnir létu vaða, reyndu sitt allra besta í að spjalla á danskri tungu. Dúllur.

Loksins kom að keppninni sjálfri, 14 atriði og hvert öðru flottara. Það sem að keppendurnir stóðu sig vel. Ekkert grín að vera á aldrinum 14-16 ára og syngja fyrir allt þetta fólk. Dáist að krökkunum sem voru að koma fram. Ég þarf varla að taka fram að stelpurnar okkar stóðu sig frábærlega!! :) Það skondna við þetta allt saman var að kynnir kvöldsins og söngvari hljómsveitarinnar sem tróð upp var eld gömul hvolpaást, já sá nú ekki sólina fyrir þessum dreng þegar ég var gelgja *** og sumir eru nú ennþá sætir ***

Eftir keppni var svo haldið í Lundaskóla þar sem við gistum og að sjálfsögðu heilmikið fjör langt fram á nótt....

Á heimleiðinni gerði ég svo eitt gáfulegt, nemendum mínum til mikillar skemmtunar. Spurði í Varmahlíð hvort þær ættu ekki sunnudags Fréttablaðið. Afgreiðslukonan leit svo hneyksluð á mig, og ég hélt að hún væri að gefa í skyn að ég væri með lokuð augun, og sagði við hana "það er sko bara laugardags Fréttablað í hillunni". Þá leit hún ennþá hneykslaðri á mig og spurði mig af hverju ég væri að biðja um sunnudagsblað á laugadegi, og henni stökk ekki bros á vör. JÁ ... GÁFULEGT.

EN ALLAVEGA. Ekkert smá gaman að fara í þessa ferð og eiga krakkarnir heiðurinn af því hvað ferðin var skemmtileg.

föstudagur, febrúar 11, 2005

..... Merkilegt nokk .....

Það er alveg magnað hvað tónlist getur sparkað manni úr sporunum!!
Hef eytt ansi mörgum stundum á hlaupabretti undanfarið og það er tvennt ólíkt að hlaupa með hraðri takfastri tónlist og engri tónlist. Maður drattast bara ekkert úr sporunum þegar tónlistina vantar og finnst eins og maður sé að draga inn síðustu andardrættina. Þegar tónlistin er hins vegar komin í botn finnst manni stundum eins og maður gæti tekið sprettinn til Reykjavíkur....

SKRÍTIÐ ... en samt ekki.

Eigum við ekki bara að setja vasadiskó eða ferðageislaspilara á langhlaupara sem hlaupa fyrir Íslands hönd, eða gera það að staðalbúnaði hjá íslenska landsliðinu í fótbolta? Mætti skella míkrófón á þjálfarana sem gætu þá komið skilaboðum áleiðis til leikmanna svona í bland við tónlistina.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Tænker på ......


Mér er illa við
*** Þorgerði Katrínu
*** þegar sjónvarpið vogar sér að fella niður Leiðarljós fyrir einhverjar útsendingar, já skamm segi ég.
*** reikningana sem koma inn um lúguna. Sérstaklega uppákomur sem ég man ekki að ég á von á eins og bifreiðagjöld.
*** litla púkann sem hvíslar að mér að hamborgari og nammi sé miklu betra en holli maturinn

Mér er vel við
*** nýja píanóið sem ég var að kaupa
*** ALLT sem tengist Danmörku
*** fólk sem er jafn klikkað og ég ......

mánudagur, febrúar 07, 2005

Aðeins og mikið sungið ..

Ég held ég hafi sungið aðeins of mikið í bústaðnum um helgina. Á laugardaginn héldum við 8 klst. söngæfingu og svo var auðvitað feikna samsöngur um kvöldið. Ég sá um kvenraddir og kórinn á meðan Siggi Braga æfði sólistana þannig að ég fékk doldið að puða.

Afraksturinn er seiðandi wiskey rödd!! .... jú og auðvitað lærði ég helling af lögum líka.

En já .. svona til að fylla inní eyðurnar þá var þetta Kammerkór Rvk samankominn og erum við að klára að undirbúa tónleikaferðina okkar til Kaupmannahafnar í mars. Ég hlakka alveg voðalega mikið til. Við munum frumflytja verk eftir Sigga Braga sem er barasta ylvolgt úr heilabúinu hans. Hann kláraði bara að semja það á þriðjudaginn síðasta. Við vinirnar ég, Ardís og Smári ásamt bassanaum Stebba fengum úthlutaða sólókafla í verkinu þannig að nú er maður að fara að syngja klassískan söng í fyrsta skiptið fyrir dönsku vinina. Ég vona að þeim finnist það ekki jafn voðalegt og Erlu Gísla :) Henni leist sko ekkert á blikuna þegar hún kom einu sinni á nemendatónleika hjá mér. Þetta er soddan gaul í okkur.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

NÝTT PÍANÓ :)

Mín fékk aldeilis sendinguna í dag :) Nýja píanóið sem ég stóð fyrir söfnun á er komið í hús!! -á nú samt eftir að borga reikninginn - hóst hóst - en það eru nú til peningar fyrir honum. Þökk sé öllu þessu frábæra fólki sem styrkti gott málefni. Ég valdi gripinn um síðustu helgi og er búin að bíða SVO spennt eftir því. Það versta er að ég get ekki notað það í kennslunni á morgun því 4. bekkur er að taka samræmd próf í tónmenntastofunni minni, uss uss uss.

Annars stendur yfir hjá mér heilmikill undirbúningur fyrir vígslutónleika á nýja gripnum. Ég og mínir nemendur ætlum að vígja gripinn við skemmtilega athöfn og bjóða styrktaraðilium og fleirum á herlegheitin. Meira um það síðar :)

Annars er heilmikið að gerast. Ég er á leiðinni í sumarbústað í Grímsnesið um helgina og þar verða örugglega nokkrar öldósir opnaðar og svo skilst mér að á laugadagskvöldinu verði steik að hætti Steina. Alltaf gaman að gera sér dagamun í góðra vina hópi.

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Matti strauk!!

Minn eiginn ættleiddi froskur hræddi úr mér líftóruna í gær!!

Ég var að þrífa búrið hans sem ætti nú ekki að vera frá sögum færandi. Eins og í hin skiptin setti ég vatn í plastdollu svo hann gæti nú svamlað eitthvað á meðan. Eitthvað leist Heimi illa á þetta og vildi endilega að ég setti lok á dolluna. Ég hélt nú ekki!! Hann hefði ekki reynt neinar hundakúnstir hingað til og þar að auki væri ég búin að gera margar tilraunir án árangurs til að láta kvikindið hoppa.

Síðan er mín í sínu allra rólegasta þangað til að ég sé froskinn í loftköstum. Hann gerði sér lítið fyrir og stökk upp úr dollunni og þaðan niður af ískápnum og af stað á gólfinu.

Mikið djöfull -afsakið orðbragðið- varð ég hrædd. Ég meina, mynduð þið ekki vera hrædd ef þið vissuð að þessir froskar eiga það til að éta aðra froska? Ekki ætlaði ég að lenda í kjaftinum á honum.

Það var ekkert með það að ég varð að kalla út hjálparsveitarmanninn Val Óðinn sem er blóðfaðir frosksins. Hann ásamt Fróða handsamaði svo kauða sem var samstundis settur í ævilangt útivistarbann úr búrinu sínu.

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Samantekt síðustu daga

Það er svo skrítið með það að maður veit aldrei hvort maður er að tala við sjálfan sig á þessu bloggi eða hvort hér séu lesendur á ferðinni :) Endilega skiljið eftir ykkur slóð í komment kerfinu svo maður geti nú fylgst með því hverjir leggja leið sína hingað!! :)

Síðasta helgi var alveg brilliant eins og Vala Matt myndi orða það. Ég skellti mér í menningarborgina. Ætla svo sem ekkert að fara nákvæmlega í þá sálma, en smávegis sögustund þó.

ÉG byrjaði reisuna á idol kvöldi í nýju flottu íbúðinni hennar Karenar. Nokkuð sátt með niðurstöður kvöldsins en samt ekki. Ég vil Brynju út, hún er ekki að höndla þetta frekar en Anna Katrín á sínum tíma. Örugglega klassa söngkonur en þeirra tími á bara að koma síðar.

Á laugardaginn verslaði ég frá mér allt vit. Verslaði píanó og píanóstól eins og planað var en öll fötin sem ég keypti voru ekki alveg á skipulaginu... Veit ekki alveg af hverju ég var allt í einu búin að eignast nýjar gallabuxur, skó, jakka og boli. Fötin bara stukku á mig og neituðu að vera skilin eftir í búðinni. Kannast ekki fleiri við þetta vandamál?

Um kvöldið fór ég svo í snilldar mat til Jórunnar og Baldurs og eftir það létu fleiri sjá sig á Hverfisgötunni og spiluðum við Popppunkt. 8 manns samankomnir og ekkert smá stuð. Fyrir algjöra tilviljun gat annar eða báðir aðilar í öllum liðum spilað á píanó eða gítar þannig að söngreitirnir urðu ansi líflegir og skemmtilegir :)
Eftir Popppunkt var auðvitað gáfulegast að fara á dansgólfið á Hverfis!! Ég ruglaðist svo örlítið á heimleiðinni, rataði ekki alveg á Meistaravellina þannig að ég fór bara í Mosó í staðinn.

Á heimleiðinni átti ég góða tilraun til þess að drepa mig, eða einhverja aðra. Að maður sé að segja frá þessu!! JÆJA. ÉG allavega missti bílinn út í lausamöl og gjörsamlega endasentist út um allan veg út í báða kanta og beið bara eftir veltunni. Shit hvað ég var fegin að mæta ekki bíl. Ég held að litla hjartað mitt hafi misst úr nokkur slög. Þetta kennir manni hvað þarf lítið til að koma sér og öðrum í lífshættu.

En svona að lokum.
Mikið ofboðslega er gaman að vera kennari. Það getur bjargað heilu dögunum þegar nemendur eru einlægir við mann :) Auðvitað finnst krökkunum maður alveg hundleiðinlegur á köflum en stundum eru þau svo þakklát og frábær. Þá er sko gaman. Þau geta alveg brætt mann þessar elskur!!