Topp 10 - hrakfallasögur utan landsteinanna!!

1. Þegar ég læsti flugmiðann, vegabréfið og peningana inni í herberginu sem ég bjó í DK og var búin að skila lyklinum inn um bréfalúgu á skrifstofunni sem var lokuð. Þar sem að ég var nánast komin uppá flugvöll þegar ég uppgötvaði þetta var ekki annað í boði en að keyra í tveimur hjólum til baka og brjótast inn á skrifstofuna svo ég kæmist úr landi. Þetta var 22.des og skrifstofan átti ekki að opna aftur fyrr en eftir jól.
2. Þegar ég gleymdi handtöskunni minni með gemsanum og peningaveskinu inní flugvél í Kaupmannahöfn og fattaði það þegar ég var komin út úr flugvallarbyggingunni, já peninga og símalaus!!
3. Þegar ég las í flugvélinni á leiðinni út til Danmerkur að það væri búið að leysa kennaraverkfallið og ég átti að mæta til vinnu morguninn eftir. Skrifstofukonurnar hjá flugfélaginu voru yfir sig hneykslaðar á mömmu þegar hún hringdi og bað um fyrsta flug heim fyrir dóttur sína ,,Já, en hún er nú bara í loftinu á leiðinni út” sagði aumingja konan sem var ekki að fatta þessa móðursýki.
4. Þegar ég uppgötvaði á flugvellinum í Kaupmannahöfn að ég átti bókað flug heim vikuna áður, sumsé átti bókaða heimferðina áður en ég fór frá Íslandi... þannig að ég mætti viku of seint í heimferðina.
5. Þegar ég var á leið uppá Kastrup með lest og heyrði allt í einu í hátalarakerfinu að lestin væri á leið til Stokkhólms (Svíþjóðar).
6. Þegar ég uppgötvaði á leiðinni uppá flugvöll að vetrartíminn hafði komið á um nóttina (klukkunni flýtt um einn tíma) sem kostaði mig næstum að ég missti af fluginu.
7. Þegar ég skildi eftir eða henti rafrænu staðfestingunni minni á flugi (í rauninni flugmiðanum) þannig að ég hafði ekki hugmynd um klukkan hvað ég átti flug heim og mamma mátti gjöra svo vel að hringja fyrir mig (ekki tímdi ég að hringja frá útlöndum) og bíða í hátt í klukkutíma í símanum til að fá þetta mál á hreint.
8. Þegar ég var að flytja heim frá Danmörku, rétt fyrir jól, og að sjálfsögðu allir á leið heim til Íslands. Að sjálfsögðu var búið að tvíbóka í sætið mitt!!
9. Þegar ég var í Finnlandi og að bíða eftir ferðatöskunni minni. Sé ég þá hvar ferðataskan er á færibandinu að sleppa frá mér og ég sýndi einhver viðbrögð þannig að karlinn við hliðiná mér ætlaði að vera svo góður að kippa henni af. Það tókst ekki betur en svo að taskan gal opnaðist og allt í einu voru nærbuxur af mér, brjóstahaldari og sitthvað fleira sem sem snerust á fullu blasti á færibandinu. VANDRÆÐALEGT!!
10. Þegar ég og vinkona mín sátum í lest og vorum að tala um konu sem sat á móti okkur. Sumt hefðum við betur látið ósagt!! Eftir dálitla stund leit konan á okkur og sagði Á ÍSLENSKU ,,ég er að fara til Asíu”